Formannafundur SSÍ á Ísafirði 9. og 10 október.

Formannafundur aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands ( SSÍ ) var haldinn á Ísafirði dagana 9. - 10. október, en formannafundur er haldin það ár sem ekki er reglulegt þing SSÍ. Umræður um kjara- og öryggismál sjómanna ásamt verðmyndun sjávarafla voru helstu málefni fundarins. Farið var ýtarlega yfir stöðu kjaraviðræðna við SFS, áður LÍÚ, en deiluaðilar hafa sammælst um að leggja stóru ágreiningsefnin til hliðar svo sem helstu kröfu SFS um breytingar á hlutaskiptakerfinu. Öryggismál sjómanna og aðbúnaður um borð í íslenskum fiskiskipum og bátum er jafnan eitt af stóru málunum sem eru rædd á formannafundum SSÍ. En í kjölfar umræðu um rannsókn á því þegar Jón Hákon BA 60 fórst hefur komið fram sú krafa frá hagsmunasamtökum sjómanna að ítarleg rannsókn fari fram á því hvers vegna skipið sökk. Því miður er fjárskorti borið við að skipið sé ekki tekið af hafsbotni. Of kostnaðarsamt sé að sækja skip sem liggi á 80 metra dýpi. Öll sjóslys á að rannsaka með faglegum hætti og ekki síst þegar mannskaði verður, þá á ekki að skorta fjárveitingar svo hægt verði að ljúka fullnaðarrannsókn. Formannafundurinn samþykkti því að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

Ályktun SSÍ vegna rannsóknar á skipskaða Jóns Hákons BA 60

"Í ljósi þeirrar umræðu sem skapaðist eftir að Jón Hákon BA 60 sökk á Aðalvík, þar sem mannskaði varð, krefst formannafundur Sjómannasambands Íslands ( SSÍ ) þess að fram fari ítarleg rannsókn á hvers vegna skipið sökk.

Forystumenn sjómannafélaga innan SSÍ krefjast þess einnig að allt verði gert, til að hægt verði að skera úr með óyggjandi hætti hvað olli þessu hörmulega slysi. Til þess að svo megi verða þá verður strax að ráðst í að ná skipinu af hafsbotni. Þar má fjárveiting úr ríkissjóði ekki vera fyrirstaða. Sjómenn eiga heimtingu á að vita hvers vegna stöðugleiki skipsins skertist svo mikið að það sökk. 

Einnig eiga sjómenn heimtingu á því að allir aðilar sem koma að öryggis og slysavörnum sjómanna taki saman höndum og tryggi að svona slys endurtaki sig ekki. Þar verði horft sérstaklega til þess að sjálfvirkur björgunarbúnaður virkaði ekki þegar slysið varð.

Sjómenn verða geta treyst á öryggisbúnað um borð í bátum og skipum. Slíkur búnaður virki og sé ávallt í fyrsta flokks ástandi. Alls ekki má varpa rýrð á ótvíræða kosti sjálfvirka sleppibúnaðarins enda hefur hann bjargað fjölda mannslífa á íslenskum bátum og skipum. Rannsóknir á sjóslysum við Ísland eiga að vera í fremstu röð og unnin með faglegum hætti. Í þeim efnum má ekki draga úr fjárveitingum til málaflokksins. Sjómenn eiga heimtingu á því skoðað verði ofan í kjölinn í hvaða úrbætur þurfi að ráðast svo sjóslys eins og á Jóni Hákon BA 60 endurtaki sig ekki."

Formannfundur aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands.

Haldinn á Ísafirði 9. – 10. október 2015

Hólmgeir Jónsson fer yfir verðmyndunarmál sjávarafla

Frá formannafundi SSÍ á Hótel Ísafirði. Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins í ræðustól.

 

Hólmgeir Jónsson fer yfir verðmyndunarmál sjávarafla