Kjaradeila SSÍ og SFS

Sælir félagar, haldin var fundur hjá Ríkissáttasemjara í deilu SSÍ og SFS þann 11. apríl. Þar lögðu útgerðamenn fram tillögur til samnings sem unnið hefur verið að í heilan mánuð, því miður virðast útgerðarmenn aðeins bæta í kröfur á hendur sjómönnum í hvert sinn sem nýr pappír kemur frá þeim.

Í þessu síðasta útspili útgerðarmanna eru skiptaprósentur í flestum veiðigreinum lækkaðar en þó mis mikið. Lagt er til að samningstíminn verði 10 ár og að lífeyrissjóðurinn (3,5% viðbótarframlagið) komi til sjómanna á 4 árum, 0,5% - stig komi við undirritun, en síðan kæmi 1% - stig á ársbyrjun 2024 og 1% - stig árlega eftir það.

Kauptrygging hækki um 33.750 kr við undirskrift og síðan um 13.500 kr árlega eftir það út samningstímann. Hvorki ætla þeir að skila 17.000 kr hækkun tryggingarinnar sem þeir stálu af sjómönnum 2019 né að láta kauptrygginguna hækka í takt við lífskjarasamninginn svokallaða. Þegar litið er til hækkana á lægstu launum í landinu þá eigum við orðið inni rúmlega 100.000 kr hækkun á kauptryggingu við undirskrift nýs kjarasamnings.

Það sem hægt er að taka út úr þessu tilboði er að það er stefna útgerðamanna að lækka laun sjómanna og ef þessi sjálfsagða krafa okkar um lífeyrissjóðinn á að koma inn þá er það skýr krafa frá þeim að sjómenn borgi það allt sjálfir og meira til.

Tillaga mín til sjómanna er sú að allir hafnar- og sérsamningar sem áhafnir eru með við útgerðir um allt land verði sagt upp og menn fari að vinna samkvæmt þeim kjarasamningi sem rann út 1. desember 2019.

Þessa tillögu mun ég leggja fram á næsta fundi hjá SSÍ og vonast til þess að aðrir formenn taki vel í hana.

Í framhaldi af þessu verði svo farið í þá vinnu að boða til verkfalla frá og með 1. janúar 2023.

 

Trausti Jörundarson

Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar