Ástæða áskorunar samninganefndar um verkfallsboðun er eftirfarandi:
Þann 24. júní síðastliðinn undirrituðu fulltrúar sjómanna nýjan kjarasamning milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hins vegar. Samningaumleitanir höfðu þá staðið frá því í ársbyrjun 2011 þegar samningar losnuðu og þar af undir stjórn sáttasemjara frá 22. maí 2012 þegar LÍÚ sem nú er SFS vísaði deilunni þangað.
Samningarnir fóru í atkvæðagreiðslu meðal sjómanna sem lauk þann 8. ágúst síðastliðinn. Atkvæði voru talin sameiginlega hjá þeim aðildarfélögum SSÍ sem sambandið fór með samningsumboð fyrir. Atkvæði voru talin þann 10. ágúst og var niðurstaðan sú að samningarnir voru felldir með u.þ.b. 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Fundur var haldinn í samninganefnd SSÍ þann 16. ágúst þar sem farið var yfir stöðu málsins og fjallað um hvaða atriði þyrftu að koma til viðbótar hinum fellda samningi til að hægt væri að fá hann samþykktan meðal sjómanna. Fram kom á fundinum að sjómenn hefðu haft meiri væntingar um að tekið yrði ákveðnar á fiskverðsmálum, að sjómenn fengju bætur vegna afnáms sjómannaafsláttarins, að nýsmíðaálagið yrði afnumið, að hlífðarfatapeningar hækkuðu verulega, að orlof yrði miðað við starfstíma á sjó og að tekið yrði á kostnaði sjómanna vegna fjarskipta. Fleiri atriði voru nefnd og var farið yfir öll þessi atriði með fulltrúum SFS, bæði á óformlegum fundum og eins á formlegum fundi hjá sáttasemjara þann 22. ágúst síðastliðinn. Ljóst var á þeim fundi að fulltrúar SFS voru ekki tilbúnir til að ræða frekar um fiskverðsmálin, sjómannaafsláttinn og nýsmíðaálagið og bentu í því sambandi á bókunina með fellda samningnum. Önnur atriði voru þeir tilbúnir að skoða jákvætt til næsta fundar. Á fundinum lagði sáttasemjari því fyrir samningsaðila að fara yfir þessi efnisatriði og koma með svör á næsta fund sem boðaður var þann 25. ágúst. Á fundinum þann 25. ágúst fengust hins vegar engin svör frá fulltrúum SFS. Töldu þeir sig þurfa meiri tíma til að skoða málin og lögðu til að ekki yrði fundað aftur fyrr en 6. september. Á fundinum 6. september lögðu fulltrúar SFS fram tillögu um breytingar frá fyrri samningi til lausnar deilunni. Þær tillögur gengu ekki nógu langt í átt til sjómanna að mati samninganefndarinnar. Því er ekkert annað eftir en að boða til aðgerða til að knýja á um lausn í deilunni.
Í tengslum við samninginn sem undirritaður var þann 24. júní síðastliðinn lýsti fjármálaráðherra yfir vilja til að liðka til fyrir samningnum með því að sjómenn fengju að lækka skattstofn sinn um 500 kr/dag m.v. lögskráningardaga vegna fæðiskostnaðar um borð. Þar sem samningurinn var felldur og ekki náðist að lagfæra hann til að koma á samningi milli aðila verður ekki af þessari skattaívilnun til sjómanna, enda var ívilnunin háð því að samningar tækjust milli aðila
Ljóst er því að frekari árangur í viðræðunum næst ekki án átaka. Því leggur samninganefndin til að boðað verði til vinnustöðvunar á fiskiskipaflotanum til að knýja viðsemjendur til viðræðna um það sem máli skiptir.