Vegleg gjöf til Sjúkrahússins á Akureyri

Sex stéttarfélög í Eyjafirði afhentu í dag, mánudaginn 5. nóvember, Sjúkrahúsinu á Akureyri styrk að upphæð kr. 1.700.000 upp í kaup á beinþéttnimæli. Halldór Jónsson, forstjóri FSA, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd sjúkrahússin.

Halldór þakkaði félögunum velvildina, minnti á að þau hefðu áður komið færandi hendi og sagði að það væri alltaf ánægjulegt að fá fulltrúa þeirra í heimsókn. “Nú er svo komið að beinþéttnimælir sem keyptur var árið 1998 hefur verið dæmdur ónýtur. Um 500 til 700 einstaklingar hafa farið í beinþéttnimælingu á þessum árum, en nú liggja slíkar mælingar niðri. Það er mikil þörf fyrir mæli sem þennan á sjúkrahúsinu og því var ákveðið að hefja söfnun fyrir nýjum mæli, sem kostar á bilinu 10 til 14 milljónir króna, svo unnt verði að tryggja þessa þjónustu til frambúðar á sjúkrahúsinu. Við höfum fengið ágætar undirtektir í þessari söfnun okkar, en þessi gjöf ykkar í dag hjálpar mikið við kaup á tækinu.” 

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði við tilefnið að stjórnir félaganna hefðu ákveðið að færa sjúkrahúsinu að gjöf kr. 1.700.000 upp í kaup á beinþéttnimæli. “Félögin hafa einu sinni á ári tekið höndum saman og styrkt verðugt málefni og þegar við fréttum að þessari söfnun þá var ekki annað hægt en ganga í málið. Það er greinilega mikil þörf fyrir að beinþéttnimælir sé staðsettur á sjúkrahúsinu og því vonum við að gjöfin verði til þess að flýta því að slíkt tækið tekið verði tekið í notkun. 

Félögin sem færðu sjúkrahúsinu styrk í dag voru Eining-Iðja, Félag byggingamanna Eyjafirði, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Verkstjórafélag Akureyrar og nágrennis.  

Á myndinni eru fulltrúar FSA, ásamt formönnum þeirra sex félaga sem færðu sjúkrahúsinu gjöfina. Talið frá vinstri: Þóra Ákadóttir, staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar FSA, Vignir Sveinsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs FSA, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Konráð Alfreðsson, Eggert Jónsson, Halldór Jónsson, forstjóri FSA, Björn Snæbjörnsson, Heimir Kristinsson og Hákon Hákonarson