1. KAFLI
1. gr.
NAFN FÉLAGSINS OG HLUTVERK:
Félagið heitir Sjómannafélag Eyjafjarðar, skammstafað SE, kennitala: 570269-0899. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Starfssvæði þess er Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsýsla, Þingeyjarsýsla vestan Vaðlaheiðar og Grindavík. Félagið er aðili að Sjómannasambandi Íslands sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.
2. gr.
TILGANGUR FÉLAGSINS ER:
Að sameina alla starfandi sjómenn sem lögheimili eiga á félagssvæðinu.
Að stuðla að stéttvísi, samhug og samvinnu félagsmanna og aukinni samvinnu sjómannastéttarinnar.
Að vinna að sameiginlegum hagsmunum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.
Að hafa nána og vinsamlega samvinnu við öll verkalýðsfélög innan A.S.Í.
Að vinna að fræðslu- og menningarmálum eftir því sem aðstæður leyfa.
Sjómannafélag Eyjafjarðar er lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félaga sinna og starfar á jafnréttisgrundvelli, óháð stjórnmálaflokkum og stefnum þeirra.
3. gr.
INNGÖNGU Í FÉLAGIÐ GETA ÞEIR FENGIÐ SEM:
Vinna þau störf er 2. gr. a) liður greinir frá.
Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan A.S.Í. sem viðkomandi hefur verið í.
Eru ekki fullgildir félagsmenn í öður félagi innan A.S.Í.
Eru ekki útgerðarmenn að bátum yfir 12 smálestir.
Eru fullra 16 ára að aldri.
4. gr.
ÁKVÆÐI UM AUKAFÉLAGA:
Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru félagar í öðru félagi.
Aukafélagar greiða fullt félagsgjald meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi til stjórnarkjörs eða annarra innri mála félagsins. Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.
5. gr.
Um inngöngu í félagið:
Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda skriflega inntökubeiðni til stjórnar félagsins. Samþykki meirihluta mættra stjórnarmanna inntökubeiðnina er umsækjandi orðinn löglegur félagi. Felli stjórnarfundur hinsvegar inntökubeiðnina, hefur umsækjandi rétt til að vísa inntökubeiðni sinni til félagsfundar. Synji félagsfundur um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til framkvæmdastjórnar Sjómannasambands Íslands en úrskurður félagsfundar gildir þar til framkvæmdastjórn S.S.Í. hefur úrskurðað annað.
6. gr.
Um úrsögn úr félaginu:
Úrsögn úr félaginu getur því aðeins átt sér stað að viðkomandi sé skuldlaus við félagið. Úrsögn skal vera skrifleg og afhendist starfsmanni félagsins.
Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu, þar til vinnustöðvun hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.
2. KAFLI
RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA, RÉTTINDAMISSIR, BROTTREKSTUR:
7. gr.
RÉTTINDI FÉLAGSMANNA ERU:
Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi samanber þó 2. mgr. 4. greinar. Atkvæðisréttur um kjarasamninga eftir nánari ákvörðun félagsfundar.
Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins, svo sem nánar er ákveðið í reglugerðum sjóðanna.
Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.
Aðstoð vegna vanefnda atvinnurekanda á samningum.
8. gr.
SKYLDUR FÉLAGSMANNA ERU:
Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
Að greiða félagsgjöld á réttum gjalddögum.
Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.
9. gr.
ÁKVÖRÐUN FÉLAGSGJALDA:
Félagsgjöld eru 1% af heildarlaunum.
Félagsmenn sem eru hættir störfum vegna aldurs, slysa, veikinda eða örorku greiða ekki félagsgjöld en halda áunnum réttindum samkvæmt lögum félagsins og reglum sjóða félagsins.
Stjórn er heimilt er veita námsmönnum undanþágu til að halda áunnum réttindum á meðan á námi stendur.
Heiðursfélagar greiða ekki til félagsins en njóta sömu réttinda og fullgildir félagar.
Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda svo sem atkvæðisréttar, kjörgengi né styrkja úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.
Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagaskrá. Stjórn félagsins getur heimilað þeim sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stunda nám eftirgjöf á félagsgjaldi.
10. gr.
UM BROT Á FÉLAGSLÖGUM:
Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi, sem ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félaginu, með einföldum atkvæðismeirihluta. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.
Hver sá maður er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu.
Úrskurði félagsfundar um áminningu, fésektir eða brottvísun félagsmanns má vísa til Sjómannasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands, en úrskurður félagsfundar gildir- þar til samböndin ákveða annað.
Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á löglegum félagsfundi.
3. KAFLI
STJÓRN OG TRÚNAÐARRÁÐ:
11. gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn og 3 menn til vara: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og 1 meðstjórnandi. Varstjórn skipa 3 menn. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.
12. gr.
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda sbr. 19 gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða.
13. gr.
Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfundi óski a.m.k. tveir stjórnarmenn eftir því. Formaður undirritar gerðabækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.
14. gr.
Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar.
Hann undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni. Gerðabækur og önnur skjöl félagsins skulu geymdar á skrifstofu félagsins.
15. gr.
Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu í samráði við starfsmann þess og eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Sjóðir félagsins skulu geymdir á vöxtum í banka, sparisjóði eða öðrum jafn tryggilegum stað, eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Hann undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni. Stjórnin ber öll í sameiningu ábyrgð á sjóðum félagsins.
16. gr.
Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins og varastjórn og 7 fullgildir félagsmenn sem kosnir eru í ráðið eftir sömu reglum og til sama tíma og stjórn. 7 varamenn skulu kosnir í trúnaðarráðið um leið og aðalmenn eru kosnir. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.
Formaður kveður trúnaðarráð til funda með þeim hætti er hann telur heppilegan. Skylt er formanni að boða til trúnaðarráðsfundar ef þriðjungur trúnaðarráðs óskar þess og tilgreinir fundarefni en fundir eru haldnir að lágmarki tvisvar sinnum á ári.
Trúnaðarráðsfundur er löglegur ef meirihluti ráðsmanna mætir eða alls 7 aðalmenn eða varamenn þeirra.
Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi og ræður einfaldur meirihluti úrslitum í slíkum málum.
17. gr.
Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast kjarasamningsgerð fyrir hönd félagsins. Nefndin er skipuð stjórn og trúnaðarráði félagsins. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar nema annað sé ákveðið í lögum félagsins. Samninganefnd er heimilt að skipta með sér verkum eftir samningssviðum.
18. gr.
Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Stjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður stjórnarinnar.
4. KAFLI
FUNDIR OG STJÓRNARKJÖR
19. gr.
Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 1/10 hluti fullgildra félagsmanna óskar þess við stjórn félagsins og tilgreinir fundarefnið. Fundir skulu boðaðir með minnst 14 sólarhringa fyrirvara á heimasíðu félagsins og 7 sólarhringa fyrirvara með auglýsingu í dagskránni og bæjarblöðum nærsveita þó má í sambandi við vinnudeilur og kjarasamninga boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstakur félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.
20. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí mánaðar ár hvert og er reikningsár félagsins almanaksárið. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 7 sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað. Um boðun aðalfundar fer að öðru leyti með sama hætti og boðun félagsfundar.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
Lýst kosningu stjórnar.
Kosning til annarra stjórna og ráða sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir.
Lagabreytingar, ef fyrir liggja.
Ákvörðun félagsgjalda, ef fyrir liggur tillaga þar um, um breytingu á lögum félagsins.
Önnur mál.
21. gr.
Viðhafa skal allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og trúnaðarráðs og skal um tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi.
22. gr.
Kosning stjórnar, varstjórnar og trúnaðarráðs varamanna í trúnaðarráð, endurskoðenda og varamanna þeirra svo og kosning fulltrúa á þing A.S.Í. og aðildarsambands þess skal fara fram að viðhafðri allsherjar-atkvæðagreiðslu og í samræmi við reglugerð Alþýðusambands Íslands um allsherjar-atkvæðagreiðslu. Til þess að bera fram lista þarf skrifleg meðmæli eða stuðnings 1/10 hluta fullgildra félagsmanna. Tillögum stjórnar og trúnaðarráðs sameiginlega þurfa engin meðmæli að fylgja. Framboðsfrestur skal minnst vera 14 sólarhringar og skal listum skilað til skrifstofu félagsins áður en sá frestur er liðinn og sér hún um að öll kjörgögn séu fyrir hendi þegar atkvæðagreiðsla á að hefjast. Komi aðeins einn listi fram, þarf kosning ekki að fara fram. Þegar framboðsfrestur er útrunninn og listum hefur verið skilað skal stjórnin auglýsa allsherjaratkvæðagreiðslu sem skal standa yfir í 14 daga minnst 4 klst, hvern virkan dag. Þeir félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt sem teljast fullgildir félagsmenn skv. 41, grein laga A.S.Í., nema þrengri ákvæði séu þar um í lögum félagsins. Stjórnin skal sjá um að kjörskrá ásamt lista yfir þá félagsmenn sem ekki eru á kjörskrá vegna skulda séu tilbúnir þegar atkvæðagreiðslan er auglýst og skal hvor tveggja liggja frammi frá þeim tíma og þar til atkvæðagreiðslu er lokið. Meðmælendur hvers lista skulu hafa rétt til að fá eitt afrit af kjörskrá ásamt skuldalista um leið og atkvæðagreiðslan er auglýst. Allar kærur út af kjörskrá skal kjörstjórn úrskurða jafnskjótt og þær koma fram. Kærufrestur er til loka kjörfundar. Eftir að atkvæðagreiðsla hefur verið auglýst má ekki veita nýjum félagsmönnum viðtöku í félagið með atkvæðisrétt en þeir sem skulda geta öðlast atkvæðisrétt, ef þeir greiða skuld sína að fullu áður en atkvæðagreiðslan hefst. Þó er þeim aukafélögum heimilt að gerast fullgildir félagar á sama tímabili, sem hafa greitt gjöld sín til félagsins næsta ár á undan enda uppfylli þeir að öðru leyti inntökuskilyrði í viðkomandi félag. Kjörstjórn sér um talningu atkvæða að kjörfundi loknum.
Umboðsmenn hvers lista skulu hafa rétt til að hafa einn fulltrúa við talningu atkvæða. Verði ágreiningur út af skilningi 22. gr. úrskurðar miðstjórn A.S.Í. ágreininginn.
5. KAFLI
FJÁRMÁL
23. gr.
Af tekjum félagsins skal greiða öll útgjöld sem stafa af rekstri félagsins svo og af löglegum samþykktum félagsfunda, trúnaðarráðs eða stjórnar félagsins.
24. gr.
Tveir félagskjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Hlutverk þeirra er meðal annars að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé vel varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið.
Stjórn félagsins leggur fram reikninga félagsins sem eru endurskoðaðir og áritaðir af
löggiltum endurskoðanda í lok hvers reikningsárs. Reikningar félagsins ásamt skýrslu stjórnar eru lagðir fram til skoðunar fyrir félagsmenn á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
25. gr.
SJÓÐIR FÉLAGSINS SKULU VERA:
Félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofsheimilasjóður og byggingasjóður svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.
Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum eða sparisjóðum eða í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign.
Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.
6. KAFLI
LAGABREYTINGAR
26. gr.
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundaboði. Til þess að breytingin nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. Breytingar á lögum koma fyrst til framkvæmda er stjórn Sjómannasambands Íslands og miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafa staðfest þær.
Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.
7. KAFLI
FÉLAGSSLIT
27. gr.
Félaginu verður ekki slitið nema ¾ allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.
Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.
Lög félagsins þannig samþykkt á aðalfundi félagsins þann 29. desember 2006.