Sjúkrasjóður

 

Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði:

Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum.
Einungis þeir sem sannanlega greiða eða er greitt af til sjóðsins 1% iðgjöld í a.m.k. síðustu 6 mánuði. Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.

Dagpeningar og styrkir eru greiddir fyrsta virka dag mánaðarins fyrir liðinn mánuð. Allar umsóknir þurfa að berast fyrir síðasta virka dag mánaðarins.  Allir reikningar eiga að vera löggildir virðisaukareikningar, í frumriti og stílaðir á félagsmann, nafn og kennitala. Ef viðkomandi félagsmaður getur ekki lagt fram frumrit reiknings, skal hann leggja fram afrit þar sem fram kemur hversu mikið framlag atvinnurekanda er. Verði félagsmaður uppvís að misnotkun er varða styrki úr félaginu, áskilur félagið sér rétt til að krefjast endurgreiðslu styrkja og getur viðkomandi félagsmaður átt von á því að í framhaldinu missi hann rétt sinn til styrkja.

 Sjómennt

 Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og starfar skamkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við Sjómannasamband Íslands. Sjóðurinn er í tveimur hlutum og veitir annars vegar fyrirtækjastyrki og hins vegar einstaklingsstyrki.

Helstu verkefni Sjómenntar eru að sinna stuðningsverkefnum og þróunar-og hvatningaraðgerðum í starfsmenntun. Sjóðnum er ætlað að styrkja rekstur námskeiða og stuðla að nýjungum í námsefnisgerð ásamt því að veita einstaklingum, verkalýðsfélögum og fyrirtækjum beina styrki vegna sí-og endurmenntunar. 

 
Einstaklingar sækja um styrki á þar til gerðum eyðublöðum til viðkomandi stéttarfélags sem sér um afgreiðslu þeirra í umboði Sjómenntar.
 
Fyrirtæki, stéttarfélög og eða fræðsluaðilar sækja um styrki til stjórnar Sjómenntar með því að senda umsókn þar sem fram koma helstu upplýsingar vegna viðkomandi fræðsluverkefnis - sjá umsóknarvefgáttina www.attin.is


Þá býður Sjómennt upp á Fræðslustjóra að láni - sjá nánar hér!