Slysa- og veikindaréttur skipverja

Lögmenn Sjómannafélags Eyjafjarðar eru Fulltingi slf.

Félagsmönnum Sjómannafélags Eyjafjarðar er veittur afsláttur af lögfræðikostnaði og geta þeir snúið sér beint til Sjómannafélags Eyjafjarðar telji þeir sig þurfa á þjónustu lögmanns að halda sem kemur þá hlutaðeigandi sjómanni í samband við lögmann. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu stofunnar: www.fulltingi.is  og í síma 533-2050

Þessi þjónusta, sem í boði er fyrir félagsmenn Sjómannafélags Eyjafjarðar, er ekki einungis á sviði vinnuréttar og verkalýðsmála heldur á flestum þeim sviðum sem félagsmenn geta þurft á lögmanni að halda. Til dæmis vegna slysa, vinnuslysa og umferðarslysa, fasteignagalla, hjónaskilnaða og líka ef þörf gerist fyrir verjanda í refsimáli.

Slysa – og veikindaréttur skipverja.

Sjómaður sem verður óvinnufær vegna slyss og sýnir fram á það með óvinnufærnivottorði á rétt á fullum launum fyrstu tvo mánuðina skv. 1.  mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ráðningarform sjómanns skipti ekki máli í þessu tilliti, þ.e. hvort hann er fastráðinn, tímabundið ráðinn eða á skiptimannakerfi. Veikindaréttur er einnig til staðar en þá með þeim hætti að sjómaður sem er veikur og sýnir fram á það með óvinnufærnivottorði, á rétt á að fá veikindalaun á því tímabili sem hann er óvinnufær. Þetta tímabil er þó aldrei lengur en þeir dagar sem skipverji hefur starfað í þjónustu útgerðar og er að hámarki tveir mánuðir.

Kauptrygging sjómanna tekur við af staðgengilskaupi að tveimur mánuðum liðnum og er kauptrygging greidd mislengi eftir starfsaldri skipverja hjá útgerð. Það athugast að sjómenn sem vilja rækja rétt sinn til greiðslu launa vegna forfalla í kjölfar slyss – eða veikinda þurfa að afla óvinnufærnivottorðs sem vottar fjarvist frá vinnu. Þeir þurfa einnig að gæta þess að slys, sé um slys að ræða, sé skráð í skipsdagbók. Mikilvægt er að leita eins fljótt til læknis og unnt er í kjölfar slyss hvort heldur það er sjóslys eða annars konar slys. Þetta er nauðsynlegt til að sýna fram á orsakatengls milli slyss og áverka sem sjómaður verður fyrir í slysi. Sé leitað of seint til læknis getur réttur til slysabóta fyrirgerst.

Þar sem ferli við slysamál taka sinn tíma og gagnaöflun og gagnkvæm samskipti við útgerðir og tryggingafélög eru lykillinn af farsælum málalyktum er nauðsynlegt að hafa samband við stéttarfélagið strax svo unnt sé að koma málum í réttan farveg. Lögmenn Sjómannafélags Eyjafjarðar eru Fulltingi slf. en lögmenn Fulltingis sérhæfa sig í skaðabótarétti og aðstoða félagsmenn Sjómannafélag Eyjafjarðar frá upphafi ferlisins til enda þess. Lögmenn Fulltingis slf. eru með skrifstofu að Höfðabakka 9, 110 Reykjavík, s. 533-2050 og er veffang þeirra fulltingi@fulltingi.is

Samstarfssamningur er milli Fulltingis slf. og Sjómannafélags Eyjafjarðar sem veitir sjómönnum sem aðild eiga að félaginu sérstök afsláttarkjör í gegnum sitt stéttarfélag. Nauðsynlegt er að hafa samband við Sjómannafélag Eyjafjarðar ætli félagsmaður sé að nýta afsláttarkjör sín – en þjónusta Fulltingis við félagsmenn einskorðast ekki við slysamál heldur er veittur afsláttur af þjónustu er snertir önnur réttarsvið, s.s. fjölskyldu- og erfðarétt, vinnurétt, fasteignamál og líka ef gerist þörf á að fá verjanda í refsimáli.

Það skal ítrekað að sé um slysamál að ræða, hvort heldur sjóslys eða frítímaslys, þá taka lögmenn Fulltingis enga þóknun nema bætur fáist greiddar.