Tæplega 90 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 34. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal um helgina. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, mætti á þingið og hélt góðan fyrirlestur um stöðuna í húsnæðismálum. Róbert Farestveit, hagfræðingur frá ASÍ, og Marinó G. Njálsson, master í verkfræði og aðgerðarannsóknum, héldu fyrirlestra þar sem þeir fjölluðu um spurninguna: Hefur fjölgun erlendra ferðamanna áhrif á vísitölu neysluverðs? Þá fjallaði Maríanna Traustadóttir, frá ASÍ, um Genfarskólann sem er félagsmálaskóli á vegum norrænu verkalýðshreyfingarinnar sem hefur það hlutverk að kynna starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar - ILO og árlegt vinnumálaþing sem haldið er í Genf í Sviss. Að erindum loknum fóru þingfulltrúar á Þeistareyki og skoðuðu framkvæmdir á svæðinu og fengu kynningu á fyrirtækinu, LNS Saga, sem er stærsti verktakinn á svæðinu.
Nýr formaður AN var kosin Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar – stéttarfélags. Með henni í stjórn eru Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, og Jón Ægir Ingólfsson, stjórnarmaður í Öldunni – stéttarfélagi. Varamenn í stjórn eru Agnes Einarsdóttir frá Framsýn – stéttarfélagi, Vigdís Elfa Þorgeirsdóttir frá Samstöðu og Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju.
Þingið tókst í alla staði mjög vel og voru þrjár ályktanir og ein áskorun samþykktar samhljóða á þinginu. Þessar ályktanir fjalla um húsnæðismál, ferðaþjónustu og vísitölu en í áskoruninni er gerð sú krafa til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að vinna bráðan bug á því ófremdarástandi sem er í síma- og netsambandi á svæði Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum. Ályktarnar þrjár og áskorunina má lesa hér fyrir neðan.
Ályktun um ferðaþjónustu
34. þing Alþýðusambands Norðurlands harmar að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu eru að brjóta kjarasamninga á ungu fólki, sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum.
Kvörtunum til aðildarfélaga Alþýðusambands Norðurlands vegna slíkra brota hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.
Þingið krefst þess að Samtök ferðaþjónustunnar leiti allra leiða til að uppræta slíkt.
34. þing Alþýðusambands Norðurlands skorar á stjórnvöld að veita aukið fjármagn til opinberra stofnanna svo þær geti sinnt eftirlitsskyldum sínum.
Ályktun um vísitölu
34. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld endurmeti útreikninga á neysluvísitölunni. Þingið bendir einnig á að núverandi vísitala gefur ekki rétta mynd af neyslumynstri fólks á landinu í dag.
Vísitala hverju sinni þarf að vera gagnsæ þannig að landsmenn geti fylgst betur með og skilið uppbyggingu hennar, allt sem er óljóst ýtir undir tortryggni og eykur vantraust.
Jafnframt hvetur 34. Þing Alþýðusambands Norðurlands stjórnvöld til að endurmeta uppsetningu á vísitölunni gagnvart íbúðarlánum.
Áskorun um síma- og netsamband
34. þing Alþýðusambands Norðurlands gerir þá kröfu til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að vinna bráðan bug á því ófremdarástandi sem er í síma- og netsambandi á svæði Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum.