Ályktanir 32. þings SSÍ um kjara- og atvinnumál sjómanna.

32. þing Sjómannasambands Íslands, haldið 4. og 5. nóvember 2021, vítir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir að í áraraðir sé ekki gerður kjarasamningur við sjómenn um þau sjálfsögðu réttindamál sem önnur samtök launafólks hafa þegar samið um.  Nú eru liðin tæp 2 ár frá því kjarasamningar sjómanna runnu út. Vegna þvergirðingsháttar útgerðarinnar er ekki útlit fyrir að samningar náist án átaka.

Þingið krefst þess að SFS gangi nú þegar til raunverulegra viðræðna við samninganefnd Sjómannasambands Íslands með það að markmiði að ljúka samningagerðinni. Þingið minnir á að hagnaður útgerðarinnar var 181.000 milljónir króna á síðustu fimm árum eða um 36.000 milljónir króna á ári að meðaltali. Að mati SFS þolir útgerðin alls ekki hógværa kröfu sjómanna um 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði. Kostnaðaraukinn af þeirri aðgerð er innan við eitt þúsund milljónir króna á ári.

32. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu útgerðarmanna um að sjómenn taki þátt með útgerðinni í greiðslu veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar útgerðarinnar, sem myndi leiða af sér verulega lækkun launa sjómanna. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar og er sá skattur stjórnvalda sjómönnum óviðkomandi.

32. þing Sjómannasambands Íslands skorar á aðildarfélög SSÍ að hefja nú þegar undirbúning aðgerða til að knýja á um alvöru samningaviðræður við útvegsmenn.  Þingið fer fram á að samninganefnd SSÍ taki málið til umfjöllunar svo fljótt sem auðið er og móti stefnu um sameiginlegar aðgerðir til framtíðar.

32. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti er hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.

32. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Það er svívirða að Alþingi skyldi sjómenn til að inna af hendi vinnu við frágang á aflanum en heimili síðan útgerðinni að skerða laun sjómanna um 80%  af því sem segir kjarasamningi að greiða eigi fyrir þá vinnu. VS afla var ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Þingið telur að reglur um VS afla hvetji frekar til brottkasts en letji. Þingið krefst þess að sjómenn fái fullan hlut skv. kjarasamningi fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig við að ganga frá öllum afla.

32. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Einnig krefst þingið þess að mönnun fiskiskipa sé ætíð í samræmi við þá vinnu sem fram fer um borð.

32. þing Sjómannasambands Íslands skorar á íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn og samtök þeirra. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri og ár. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt  traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samskiptum.

 32. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin.

 32. þing Sjómannasambands Íslands  hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntasjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera. Það er skömm frá að segja að útgerðin í landinu greiði ekki til endurmenntunar sjómanna sinna, heldur er það greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

 32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á  fiskistofna við Ísland

 32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til varkárni þegar rafrænt eftirlit er stundað um borð í skipum. Augljóslega er rafrænt eftirlit til bóta þegar öryggi skipverja og skips á í hlut. Skilja verður algerlega milli vinnu og friðhelgis einkalífs skipverja. Skipið er jú bæði vinnustaður og heimili sjómannsins. Þingið er sammála því að aukið rafrænt eftirlit verði haft með brottkasti og löndun úr íslenskum skipum til að koma í veg fyrir löndun fram hjá vigt. Þingið fer fram á að útgerðarmenn fari að persónuverndarlögum í þessum efnum.

 32. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til þess að samtök útgerðarmanna ásamt sjómönnum skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annara landsmanna.

 32. þing Sjómannasambands Íslands varar mjög sterklega við því að sjómenn láti hafa sig í að taka að sér gerviverktöku til sjós. Enda er það kolólöglegt og vinna til sjós er ekki verktakavinna.