Ályktun miðstjórnar ASÍ um hugmyndafræði réttlátra umskipta og orkuskipti í sjávarútvegi.

Miðstjórn Alþýðusambands Ísland leggur þunga áherslu á að hugmyndafræði réttlátra umskipta sé höfð að leiðarljósi við útfærslu og framkvæmd aðgerða í loftslagsmálum. Því mótmælir miðstjórn þeim áformum stjórnvalda að velta kostnaði við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi yfir á ríkissjóð og þar með almenning á Íslandi.

Réttlát umskipti fela í sér að aðgerðir í loftslagsmálum byggi á réttlæti og stuðli að jöfnuði og að þeim tækifærum og byrðum sem umskiptin fela í sér, sé skipt með sanngjörnum hætti. Áhrif af loftslagsbreytingum og af aðgerðum til að stemma stigu við þeim eru misjöfn eftir því um hvaða hópa samfélagsins ræðir. Útfærsla og framkvæmd aðgerða stjórnvalda ræður mestu um hvaða áhrif breytingarnar munu hafa á velferð, jöfnuð og lífskjör.

Þann 10. júní kom út skýrsla starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi þar sem m.a. er að finna tillögur að leiðum til að draga úr losun frá sjávarútvegi. Tillögurnar fela einkum í sér beitingu hagrænna hvata, í formi skattalegra ívilnana, styrkja og fjárfestingar, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi.

Á sama tíma og stjórnvöld áforma að beita fjárhagslegum hvötum til að auðvelda sjávarútveginum að draga úr losun felast aðgerðir stjórnvalda gagnvart almenningi einkum í íþyngjandi aðgerðum svo sem álögum í formi kolefnisgjalds. Talsmenn sjávarútvegsins hafa ítrekað fullyrt að kolefnisgjald sé óhóflegt og leggist þungt á fyrirtækin. Sama málflutningi er haldið uppi um nauðsyn þess að veiðigjöld haldist lág með þeim rökum að ella geti greinin ekki staðið undir fjárfestingu sem sé m.a. nauðsynleg til að sjávarútvegurinn geti dregið úr olíunotkun og minnkað sótspor greinarinnar.

Sjávarútvegurinn skilar gríðarlegum hagnaði á ári hverju. Á sama tíma nýtur greinin mikils ávinnings af lágum veiðigjöldum (greiðslur í formi veiðigjalda námu 4.9 milljörðum árið 2020) og öðrum aðgerðum stjórnvalda, t.a.m. lækkun tryggingagjalds til að auðvelda fyrirtækjum að mæta hækkuðu mótframlagi í lífeyrissjóð sem samið var um árið 2016.