Áskorun LÍÚ, FFSÍ, SSÍ og VM til stjórnvalda: Eflum þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar

Landssamband íslenskra útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa sent frá sér sameiginlega áskorun til stjórnvalda um að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar þannig að hún fái sinnt því eftirlits- og öryggishlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Áskorunin er svohljóðandi: Áskorun LÍÚ, FFSÍ, SSÍ og VM til stjórnvalda: Eflum þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar Nýlegt atvik undirstrikar að niðurskurður á rekstrarfé Landhelgisgæslunnar ógnar öryggi sjómanna á hafi úti. Þá varð Landhelgigæslan að synja beiðni frá íslenskum togara sem óskaði eftir þyrluhjálp vegna veikinda skipverja. Ekki var hægt að verða við beiðninni, þar sem skipið var um 70 sjómílur frá landi og aðeins ein þyrluvakt til taks. Við slíkar aðstæður er þyrla ekki send lengra en 20 mílur á haf út. Landhelgisgæslunni er ætlað að sinna mjög víðfeðmu hafsvæði og hún gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslenska sjómenn. Upp geta komið tilvik eða aðstæður, þar sem tími til björgunar er svo naumur að þyrla er eina tækið sem sjómenn geta treyst á. Þótt þrengingar séu í ríkisrekstri er það dýrkeyptur sparnaður að vega að ákveðnum grunnþáttum á borð við þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar og þar með öryggi sjómanna á hafi úti. Við skorum því á stjórnvöld að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar þannig að hún fái sinnt því eftirlits- og öryggishlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum.

Landssamband íslenskra útvegsmanna,
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands,
Sjómannasamband Íslands,
VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna