Alþýðusamband Norðurlands hélt fulltrúaráðsfund sinn á
Illugastöðum síðastliðinn föstudag. Á fundinn mættu ríflega 30 fulltrúar aðildarfélaga sambandsins þar sem
m.a. var samþykkt ályktun þar sem óhóflegum niðurskurðartillögum stjórnvalda til heilbrigðisstofnanna á
Norðurlandi er mótmælt.
Á fundinum voru flutt nokkur fróðleg erindi. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ræddi um stöðu mála í komandi
kjarasamningaviðræðum, og kom m.a. fram í máli hans að framundan væru erfiðar viðræður og að hans mati brýnast að leita
leiða til að verja kaupmátt launa. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, fjallaði um ný lög um
vinnustaðaskírteini og vinnustaðaeftirlit auk þess að ræða um aðgerðir ASÍ vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.
Sérstakur gestafyrirlesari var Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel og aðalsamningamaður Íslands í
aðildarviðræðum við ESB, sem fjallaði um stöðu viðræðnanna og næstu skref.
Að loknum erindum á fundinum var samhljóða samþykkt eftirfarandi ályktun gegn niðurskurðartillögum stjórnvalda til reksturs
heilbrigðisstofnana á Norðurlandi:
Ályktun Alþýðusambands NorðurlandsAlþýðusamband Norðurlands mótmælir harðlega þeirri aðför að
heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi sem fyrirhuguð er samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2011. Þessar tillögur
lýsa miklum þekkingarskorti ríkisvaldsins á staðháttum og starfsemi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.
Það er algjörlega óþolandi að ráðist sé á grunnstoðir byggðalaganna með þessum hætti og ljóst að ef
fyrirhugaðar aðgerðir ná fram að ganga mun það leiða til uppsagna starfsfólks og fólksfækkunar, auk þess að þrengja verulega
að búsetuskilyrðum byggðalaganna til frambúðar.
Starfsfólk og skjólstæðingar heilbrigðisstofnana á Norðurlandi hafa þegar tekið á sig verulegar skerðingar undanfarin misseri og mega ekki
við meiru án þess að skerða þá þjónustu sem notendur stofnananna telja eðlilega og sjálfsagða í sínu
byggðalagi.
Ennfremur mótmælum við þeirri staðreynd að mest allur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu skuli eingöngu bitna á örfáum
stofnunum á landsbyggðinni með tilheyrandi áföllum fyrir þau byggðalög.
Alþýðusamband Norðurlands gerir þá kröfu til þingmanna Norðurlands að þeir beiti sér af alefli fyrir endurskoðun á
fjárheimildum til heilbrigðisstofnananna á Norðurlandi, því þetta sé ekki rétta leiðin til þess að efla byggðirnar eða
bæta lífskjör þeirra sem búa á landsbyggðinni.