Fundur með félagsmönnum

Fundur með félagsmönnum var haldinn miðvikudaginn 10. nóvember 2021.

Farið var yfir það sem gerst hefur í samningaviðræðum milli SSÍ og SFS það sem af er þessu ári.  Staðan í þessum viðræðum er þannig að slitnað hefur uppúr viðræðum fyrir þó nokkru síðan og það sem aðilar eru ósammála um er tilgreinda séreignin og lausn á því máli er ekki í sjónmáli eins og staðan er í dag.

Það þykir vera með ólíkindum hversu ílla gengur alltaf að ná samningum milli þessara aðila, vanvirðing útgerðamanna á störfum sjómanna er algjör og þetta ástand virðist frekar vera eðlilegt en undantekning sem getur aldrei verið ásættanlegt.. Endalausar hártoganir um hluti sem þykja vera sjálfsagt mál á almennum vinnumarkaðir en samkvæmt samninganefnd SFS mundu leggja útgerðina á hliðina. 

Tilgreind séreign ber þar hæst hvað varðar kostnað fyrir útgerðir landsins en reikna má með að þetta mundi kosta útgerðir landsins u.þ.b. 700-900 milljónir á ári, sem gerir um 7-10 milljónir að meðatali á hvert fyrirtæki í sjávarútvergi. Meðalhagnaður útgerðanna  síðustu 11 ár er ekki nema um 20.000 milljónir á ári þannig að það er kannski skiljanlegt að þetta sé of stór biti fyrir þá að borga.

Þegar sjómenn eru búnir að vera samningslausir í 9 af síðustu 11 árum segir það meira en mörg orð um hversu hátt þeir eru skrifaðir hjá sínum vinnuveitendum.

Trausti Jörundarson

Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar