Gjöf til hjálparsamtaka í Eyjafirði

Forsvarsmenn stéttarfélaganna og viðtakendur
Forsvarsmenn stéttarfélaganna og viðtakendur

Átta stéttarfélög í Eyjafirði afhentu fyrr í dag, þriðjudaginn 9. desember, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálparstarfi kirkjunnar, Hjálpræðishernum og Rauða krossinum styrk að upphæð kr. 2.050.000.

Styrkurinn verður notaður í samstarfsverkefni þessara fjögurra samtaka Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Rauða krossins. Samstarfið var sett á laggirnar til að einfalda málið, en nú þarf einungis að sækja um aðstoð á einum stað Rétt er að vekja athygli á því að þessir aðilar aðstoða fólk um allan Eyjafjörð, frá Siglufirði að Grenivík.

Þetta er í þriðja sinn sem þessi samtök taka höndum saman fyrir jólin og veita þeim aðstoð sem þurfa. Í fyrra var úthlutað rúmlega 300 styrkjum í formi greiðslukorta sem hægt var að versla fyrir í ákveðnum verslunum. Fram kom, er styrkurinn var veittur, að það sé merkjanleg aukning í mataraðstoð fyrir jólin og að fleiri séu að koma í fyrsta sinn. „Við erum að sjá meira af eldra fólki og eins einstaklinga sem er á vinnumarkaði en er í erfiðri stöðu.“ Það kom líka fram að greinilegt er að húsaleigumarkaðurinn sé að sliga marga.

Jólaaðstoðin hófst um síðustu mánaðamót með viðtölum, en allir sem sækja um aðstoð þurfa að panta tíma í viðtal. Þeir sem fá úthlutun sækja kortin sín þriðjudaginn 16. og miðvikudaginn 17. desember nk. milli kl. 13 og 16. Auk þess verður fatamarkaður og jólagjafir fyrir umsækjendur og fjölskyldur þeirra opinn laugardaginn 13. desember hjá Rauða krossinum á Akureyri, Viðjulundi 2 og Hertex Hjálpræðishersins, Hrísalundi 1b.

Félögin átta sem færðu nefndinni styrk eru Eining-Iðja, Byggiðn – Félag byggingamanna, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Berg félag stjórnenda.

Ef einhverjir fleiri vilja leggja átakinu lið þá er hægt að leggja inn á reikning verkefnisins, (0302-13-175063, kt. 460577-0209) Munið, margt smátt gerir eitt stórt.