Kjarasamningur undirritaður

Föstudaginn 24. sl var undirritaður kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands fyrir hönd sinna aðildarfélaga annars vegar og SFS fyrir hönd sinns aðildarfélaga. Kauptrygging og aðrir kaupliðir hækka til samræmis við það sem gerst hefur á hinum almenna vinnumarkaði. Fyrir utan kauptrygginguna og olíuverðsviðmiðunina liggja verðmæti samningsins í bókununum um yfirferð samninganna annars vegar og bókuninni um athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í uppsjávarskipum, ísfisktogurum og dagróðrarbátum. Vinna við bókun 3 um yfirferð kjarasamningsins hefst í haust verði samningurinn samþykktur og verður ríkissáttasemjari með verkstjórn á þeirri vinnu. Bókun 2 um hvíldartímann og mönnun verður á forræði Samgöngustofu.
Til hliðar við samninginn kemur síðan skattaívilnun vegna fæðiskostnaðar sjómanna á fiskiskipum, en sú ívilnun tekur gildi um áramót, en Alþingi á þó eftir að breyta lögum til að það mál geti orðið að veruleika. Það verður gert á haustþinginu.
Eftirfarandi er minnisblað skrifað af framkvæmdastjóra SSÍ eftir fund í fjármálaráðuneytinu.

„Skattaívilnun vegna fæðiskostnaðar sjómanna á fiskiskipum.

Á fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins vegna óska um að fæðispeningar sjómanna yrðu skattfríir eru skilaboð ráðuneytisins þau,  að vilji sé til að koma að hluta til móts við óskir sjómanna til að liðka fyrir samningum aðila.

Ráðuneytið geti þó ekki orðið við því að allir fæðispeningarnir verði skattfríir. Ráðuneytið taldi jafnframt að það sem gert yrði í málinu yrði að vera einfalt og gagnsætt, þannig að ekki væri hætta á að þessi fríðindi færu til fleiri aðila en ættu að njóta m.a. vegna jafnræðis sem skattgreiðendur ættu að njóta samkvæmt skattalögum.

Mat ráðuneytisins er að ef ákveðið yrði að sjómenn á fiskiskipum fengju 500 kr á lögskráningardag óháð skipastærð  í frádrátt frá tekjum vegna fæðiskostnaðar áður en skattlag er yrðu tekjuáhrif hins opinbera af því um 500 milljónir, en það væri sú upphæð sem hið opinbera væri tilbúið að setja í málið.

Ráðuneytið er tilbúið að skoða aðrar útfærslur að því tilskildu að tekjuáhrif aðgerðarinnar fari ekki yfir 500 milljónir og að útfærslan verði einföld og gagnsæ þannig að ekki verði um misnotkun að ræða

Skattaívilnun tekur gildi 1. janúar 2017, en nauðsynlegar lagabreytingar vegna þessa verða afgreiddar í haust.“

Kynning á samningnum mun nú fljótlega fara af stað. Varðandi atkvæðagreiðslu um samninginn þá er gert ráð fyrir að atkvæði verði talin sameiginlega hjá öllum aðildarfélögum SSÍ sem að samningnum standa. Atkvæðagreiðslu um samninginn á að ljúka um miðnætti þann 8. ágúst næstkomandi og er gert ráð fyrir að talning atkvæða hefjist kl. 14:00 þann 10. ágúst.