Rúmt ár án kjarasamnings

Rúmt ár án samnings.

Nú er svo komið að sjómenn á hafa verið án kjarasamnings í rúmlega eitt ár eða frá 1. desember 2019. Viðræður við SFS hafa vægast sagt gengið ílla og þar er eiginlega ekkert að frétta og allar tillögur frá okkur í SSÍ til SFS til að reyna að liðka um í samningamálum hefur verið hent út af borðinu án þess svo mikið sem að þær séu skoðaðar. Vegna COVID-19 ástandsins í þjóðfélaginu á þessu ári reyndum við hjá SSÍ að koma með mjög hógværar kröfur og öll helstu ágreiningsmálin lögð til hliðar til þess að reyna að búa til kjarasamning til tveggja ára en það skipti ekki máli og þessu var einfaldlega hafnað af SFS. Það kom svo í ljós síðar í ferlinu að SFS missti umboð sitt til kjarasamningagerðar 1. desember 2019 og hefur því ekki  umboð til að gera samning við SSÍ sem er með öllu óskiljanlegt þar sem allmargir fundir hafa átt sér stað á árinu 2020 og þetta atriði aldrei verið til umræðu.

Heildarendurskoðun kjarasamnings.

Háleit markmið voru sett þegar núverandi kjarasamningur var undirritaður þess efnis að á samningstímanum yrði unnið við heildarendurskoðun á kjarasamningnum, athugun á mönnun og hvíldartíma um borð í skipum og um skiptimannakerfið. Í stuttu máli þá gekk það ekki eftir og er svo komið að af þeim bókunum sem gerðar voru var aðeins ein kláruð sem fólst í könnun á mönnun og hvíldartíma sjómanna. Öllum þessum atriðum átti að ljúka fyrir sumarið 2019 og þá átti að hefjast handa við gerð nýs kjarasamnings en vegna ágreinings milli aðila þá gekk þetta ekki eftir og er það miður.  Það tók svo steininn úr þegar SFS ákvað einhliða að hluti kjarasamnings, grein 1.29.1. sé ekki lengur í gildi og tekur út þennan hluta og lækkar skiptaprósentuna um 0,5%. Þetta hefur aldrei verið gert áður í sögu kjarasamninga sjómanna á Íslandi að annar aðilinn taki út grein úr kjarasamningi af því að sú grein hentar honum ekki lengur. Þetta eru nú samt vinnubrögð þeirra sem stjórna SFS og það kemur manni ekki lengur á óvart hvernig SFS túlkar kjarasamninga og annað yfir höfuð. Þetta mál hefur nú verið kært til félagsdóms og er þaðan að vænta niðurstöðu fyrir miðjan janúar 2021.

Áframhaldið.

Það er skýr afstaða Sjómannafélags Eyjafjarðar að um leið og niðurstaða skilar sér úr málinu hjá félagsdómi þá verði þessari deilu vísað til Ríkissáttasemjara og hann látinn stjórna viðræðum. Það að reyna að ná saman einhverjum kjarasamningi án aðkomu sáttasemjara er nú fullreynt.

Að lokum vil ég óska félagsmönnum í Sjómannafélagi Eyjafjarðar og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og góðs nýs árs og þakka fyrir samskiptin á liðnu ári.

Trausti Jörundarson

Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.