Stjórn Sjómannasambands Íslands skorar á stjórnvöld að falla frá tillögum um breytingar á samsköttunarkerfinu. Það kæmi sérstaklega illa niður á sjómannastéttinni. Makar sjómanna hafa ekki eins góða möguleika að afla tekna vegna langar fjarveru sjómannanna sem eru í mjög mörgum tilfellum eina fyrirvinna heimilisins.
SSÍ telur að með nýjum lögum um samsköttun hjóna og sambúðarfólks sé vegið að sjómönnum sem leggja mikið til samfélagsins en njóta ekki sömu þjónustu og aðrir vegna langra fjarvista á sjó. Lágmark hlýtur að teljast að sjómenn geti samskattað með maka sem ekki er útivinnandi eða er í hlutastörfum.
Nú er lag að stjórnvöld þessa lands gæti að réttindum sjómanna. Sjómenn misstu hinn svokallaða sjómannaafslátt að fullu á árinu 2013. Ef litið er til nágrannalanda okkar eru sjómenn með skattaafslátt fyrir vinnu sína fjarri heimilum sínum. Rökin eru auðvitað þau að sjómenn nýta samfélagslega þjónustu mun minna en aðrir. Þessi rök eru meginástæða þess að skattaafslættir eru veittir til sjómanna í nágrannalöndum okkar.
Með því að sjómenn haldi áfram að nýta þá samsköttun sem leyfð hefur verið undanfarin ár eru stjórnvöld að viðurkenna þá alkunnu staðreynd að sjómenn skipta máli þegar kemur að tekjuöflun Ríkissjóðs og þeir samt sem áður nýta sér almannaþjónustu minna en aðrir landsmenn og eiga að fá umbun fyrir það. Annað er óboðlegt af ríkisstjórn sem telur sig vera stjórn hinna vinnandi stétta. Sjómenn eru líka vinnandi stétt og telst til hins almenna borgara þó sumir vilji ekki viðurkenna að svo sé.