Stjórn Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum hefur tekið þá ákvörðun um það að loka byggðinni fyrir allri umferð og dvöl frá og með kvöldi mánudagsins 30. mars nk. til 1. maí nk. Þetta er gert til að verða við tilmælum almannavarna og einnig til að vernda starfsfólk byggðarinnar í baráttunni við þessa veiru sem nú tröllríður okkar landi.
Það er gert ráð fyrir því að veiran verði í hámarki um páskana. Þetta er ekki auðveld ákvörðun en stjórnin vill frekar taka þessa ákvörðun núna heldur en þegar einhver veikist í byggðinni. Um páskana var von á fólki frá öllum landshornum og því væri hættan mikil á að smit kæmi með einhverjum þeirra. Við vitum að það verður ekkert gaman að tilkynna þeim sem eru búnir að panta hús að það sé búið að loka byggðinni en við teljum þetta nauðsynlegt.
Stjórn byggðarinnar vonar að þetta gangi fljótt yfir og gestir geti áfram notið dvalar á Illugastöðum sem fyrst eftir að þessi veira gengur yfir.