Tímamótadómur

Þann 4. nóvember sl. vann félagsmaður í Sjómannafélagi Eyjafjarðar mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem hann höfðaði gegn Samherja og var fyrirtækið gert að greiða honum kr. 695.434 með dráttarvöxtum. Samherji þurfti einnig að greiða honum kr. 300.000 í málskostnað. Mál þettavar unnið af Lögmenn Jónas & Jónas Þór sf. sem eru lögmenn Sjómannafélagsins.

Um er að ræða mál þar sem farið var fram á vangreidd laun. Viðkomandi félagsmaður var matsveinn á einu skipi félagsins og byggði málið á því að í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, gr. 5.31, segir að þegar skipverjar séu 26 eða fleiri á frystitogurum skuli matsveinn hafa aðstoðarmann. Í þremur veiðiferðum sem farnar voru á árinu 2007, voru 26 menn í áhöfn en enginn aðstoðarmaður matsveins. Laun hans hefðu alls numið kr. 695.434 og var farið fram á það að Samherja beri að greiða matsveininum þessa upphæð þar sem vinna hans hefði aukist.

Samherji mótmælti að stefnandi hefði unnið öll þau verk sem aðstoðarmanni hefðu verið falin og segir að aðrir skipverjar hafi tekið á sig þau verkefni, en ekki var reynt að sanna þá fullyrðingu. Niðurstaða dómsins var því sú að Samherji þurfti að greiða stefnanda sem svarar þeim launum sem aðstoðarmanni hefðu verið greidd, eða kr. 695.434, og málskostnað, kr. 300.000.

„Sjómannafélagið ákvað að standa við bakið á viðkomandi félagsmanni og greiða fyrir hann málskostnað ef illa færi,“ segir Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar. „Það má með sanni segja að um sé að ræða tímamótadóm. Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á þetta ákvæði fyrir dómstólum þó lengi hafi staðið yfir barátta um að fá þetta greitt, að farið sé eftir reglu 5.31 í samningnum. Þar til nú hefur enginn lagt í það að fara með málið fyrir dóm, því menn eru hræddir um plássin sín og hafa til þessa ekki viljað styggja útgerðina. Sem betur fer hafa sumar útgerðir virt þetta ákvæði að fullu og haft aðstoðarmann matsveins um borð eða borgað eins og kveðið er á um í grein 5.31 og er það viðkomandi útgerðum til sóma. Svo eru það hinir sem hafa ákveðið að virða ekki ákvæðið, en nú er dómur fallinn og styður alfarið okkar baráttu í þessu máli.“