Meginmarkmið kjarasamningsins sem var felldur í atkvæðagreiðslu í mars 2023 var að tryggja mönnum tilgreinda séreign sem allir aðrir á almennum vinnumarkaði hafa samið um með lækkun á kauptaxta. Viðbótar framlagið hefðu menn getað valið um að setja í samtryggingu lífeyrisréttinda eða í tilgreinda séreign sem er sambærilegt við séreignarsjóð og er þá eign viðkomandi manns.
Niðurstaða kjarasamningsins varð sú að menn gátu valið á milli tveggja leiða annarsvegar A) lækka skiptaverðmætið úr 70% í 69,2% og fá þá inn 3,5% viðbótarframlag frá útgerðinni eða B) hækka skiptaprósentu í 70,5% og fá þá ekki viðbótar framlag frá útgerðinni í lífeyrissjóð. Með þessu er hægt að segja að skipt sé úr 71,4% í A) liðnum þar sem þetta kemur til hækkunar á launum og launatengdum greiðslum um 2% og einnig í B) þar sem hækkun skiptaverðmætisins er 0,5%-stig, sem er um 0,7% kauphækkun.
Veikindar- og slysaréttur var líka til umræðu og var ákveðið að fara þá leið að lengja réttindi sjómanna til launa vegna veikinda eða slysa úr 60 í 120 daga þó misjafnt eftir því hvernig menn eru að skipta með sér róðrarlagi. Í flestum tilvikum kemur þetta vel út fyrir þá sjómenn sem verða veikir eða slasast alvarlega. Með þessu er verið að tryggja að sjómenn fái laun í samræmi við róðralag , ekki minna og ekki meira.
Einnig var ákveðið að koma á laggirnar sérstakri öryggisnefnd sem mundi vinna markvisst að því að bæta aðtöðu og öryggi sjómanna auk þess að hlúa að heilsu og líðan á sjó. Með þessu átti að reyna að fækka slysum og draga úr álagi hjá sjómönnum.
Aðrar helstu umbætur á þessum samningi voru að skipt yrði úr 100% aflaverðmæti og hætta að taka mið af olíuverði við uppgjör, við umbreytingu í 100% yrði tekið mið af 69,2% (Lífeyrisauki) eða 70,5% (kaupauki) skiptaverðmætis. Allar skiptaprósentur yrðu reiknaðar upp og mundu leiða til sömu niðurstöðu í launum.
Breytt yrði úr brúttólestarmælingu yfir í skráningarlengd skips og ákvæði um uppsjávarveiðar yrðu sameinaðar í eitt.
Kauptrygging átti að hækka um 127.247 kr-. og fara þannig úr 326.780 kr-. í 454.027 kr-. og þar af leiðandi mundi tímakaup hækka úr 1885 kr-. á tímann í 2910 kr-. Tengja átti kauptryggingu við taxta hjá SGS þannig að út samningstímann tæki kauptrygging þær hækkanir sem kæmu á almennum vinnumarkaði, með öðrum orðum var ákveðið að tryggja lágmarkslaun sjómanna út samningstímann með tengingu við laun í landi.
Samningstíminn var 10 ár með uppsagnarákvæði eftir fimm ár, þetta fór misvel í menn og nú er verið að vinna í því að reyna að stytta samningstímann.
Að þessu sögðu þá hafa farið fram fundir núna í haust til að reyna að koma þessu saman aftur og þeir fundir hafa gengið ágætlega þó enn séu nokkur atriði sem þarfnast betri skoðunar. Þar er einna helst grein 1.29.3 sem hefur að gera með yfirísun á fiski sem seldur er erlendis. Þessa grein þarf að taka út þar sem hún á ekki lengur við nema í undantekningartilfellum. Þetta hefur lengi verið í umræðunni og nú er komið kjörið tækifæri til að leiðrétta þetta. Það er alveg ómögulegt að menn standi á bryggjunni og ísi yfir afla sem er löngu seldur og oftar en ekki er þessi afli seldur áður en hann er veiddur þannig að þetta á ekki við. Búið er að ganga frá alflanum um borð, búið að selja hann. Ákvæði þessarar greinar á einungis við þegar afli fer til sölu á uppboðsmarkað erlendis
Umræðan um þennan samning hefur verið misjöfn, sumir jákvæði og aðrir neikvæðir. Það er ábyrgðarhlutverk að koma að gerð kjarasamninga og þegar það gengur ekki upp þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur og þá að ná meiru inn en gert var síðast.
Sú umræða sem hefur skapast um að Sjómannasamband Íslands sé eitt ábyrgt fyrir þessum samningi er að öllu leyti röng, allir forystumenn sjómanna komu að gerð þessa samnings og er þar enginn undanskilinn. Það vekur hjá mér spurningar þegar formaður Sjómannafélags Íslands (SÍ) firrir sig allri ábyrgð og talar þannig um samninginn eins og hann hafi ekkert komið að þessu. Staðreyndin er sú að formaður SÍ kom á alla fundi sem ég var á við gerð þessa samnings og þeir fundir voru um 30 talsins.
Þegar til stóð að klára samningagerðina hljóp hann úr húsi og lét ekki ná í sig.
Trausti Jörundarson
Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.