Upplýsingar um stöðu mála í samningaviðræðum sjómanna.

Ég er búinn að velta fyrir mér samningamálum sjómanna við SFS í dágóðan tíma og sé ekki að lausn sé í sjónmáli í þessari deilu. Margir fundir hafa verið haldnir og að ég held að enginn þeirra sé búinn að vera lengri en 3 klukkutímar og þá er gert hlé á fundum í 14 daga og þá er komið saman aftur til að ræða það sem var rætt síðast og ekkert er klárað.

Það er endalaus þoka í þessum viðræðum og það sést ekki til lands og hefur í raun og veru aldrei gert vegna áhugaleysis SFS á að sinna þessari vinnu. Það er þeirra hagur að hafa hlutina eins og þeir eru og þess vegna liggur þeim ekkert á að semja við sjómenn. Mín upplifun af þessu er sú að þarna sitja einstaklingar frá SFS sem hafa ekki umboð til að semja við okkur og ég styrkist í þeirri trú með hverjum fundinum sem er haldinn.

Margt hangir á spýtunni en ekkert af því er að mínu mati svo yfirgengilega erfitt að ekki sé hægt að ná lendingu í þeim málum, það sem vantar er vilji til að sitja yfir þessu og reyna að ná fram lausnum sem báðir aðilar geta sætt sig við.  Hér að neðan eru helstu málin sem rætt er um.

Lífeyrisjóður, þ.e.a.s. aukið framlag uppá 3.5%, tillaga SFS er að þetta komi inn á 4 árum en við viljum að þetta gerist aðeins hraðar eða á 3 árum. Þetta atriði er það sem veldur mestum ágreiningi og erfitt verður að ná saman vegna kostnaðar sem hlíst af þessu. Það er alveg á hreinu að SFS ætlar sjómönnum að borga fyrir þetta að fullu og meira til og það gengur ekki.

Vinna við að skipta úr 100% aflaverðmæti er svo að segja komið í höfn og eru aðilar nokkuð sammála um þetta atriði.

Hækkun kauptryggingu og annarra kaupliða er svo langt frá því að vera í takti við okkar tillögur að það er hálf kómískt, en þarna er tilboð SFS þannig að um kauprýrnun væri að ræða. Þeir bjóða 33.500 kr hækkun við undirskrift og svo 13.500 kr á ári út samningstímann en við viljum fá 100.500 kr hækkun við undirskrift og svo hækkun í samanburði við launaflokk 7 í almennum kjarasamningi SGS ár hvert á samningstímanum.

Lengd kjarasamnings, þar er SFS að bjóða 10 ára samningi en við viljum gera 5 ára samningi.

Slysatrygging sjómanna er deilumál sem hægt verður að leysa þar sem ekki er mikill munur á kröfu SFS og okkar. Það sem ber að hafa í huga varðandi þetta er að ef kauptrygging hækkar þá hækkar hlutur sjómanna í þessari kröfu þannig að ef hægt er að ganga að okkar kröfu um kauptryggingu þá er þetta gjald komið í um 7500 kr og svigrúm fyrir smá hækkun þar ef það verður til þess að loka þessum samningi.

Tillögur um ný og eldri skip, þarna er verið að tala um framlengingu á hinu íllræmda nýsmíðiálagi og það þarf ekkert að ræða þetta því ákvæðið dettur út 2031 og það verður ekki gert annað svona samkomulag.

Fundað var í gær 30. maí í húsakynnum Ríkissáttasemjara og eftir þann fund er það orðið ljóst að ekkert verður úr samningagerð fyrir sjómannadag. Það er alveg á hreinu að það er ekki vilji SFS að gera kjarasamning við sjómenn og viðhorf þeirra til okkar hefur aldrei verið jafn ömurlegt og það nú.

Trausti Jörundarson

Formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.