Vegleg gjöf til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar

Á myndinni eru Jóna Berta Jónsdóttir og Björg Hansen, fulltrúar Mæðrastyrksnefndar, ásamt fulltrúum …
Á myndinni eru Jóna Berta Jónsdóttir og Björg Hansen, fulltrúar Mæðrastyrksnefndar, ásamt fulltrúum fimm félaga af þeim sex sem færðu nefndinni gjöfina. Talið frá vinstri. Heimir Kristinsson, Eggert Jónsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Jóna Berta, Hákon Há
Sex verkalýðsfélög í Eyjafirði afhentu í dag, föstudaginn 27. nóvember, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar styrk að upphæð kr. 1.800.000. Jóna Berta Jónsdóttir veitti styrknum viðtöku fyrir hönd Mæðrastyrksnefndarinnar.
Jóna Berta sagði af því tilefni að það væri búið að vera mikið að gera hjá þeim því þörfin væri mikil, of mikil eins og oft áður. „Því miður þurftum við að taka þá erfiðu ákvörðun að úthluta ekki nú í nóvember. Við þorðum því ekki því við vildum eiga nóg fyrir jólin. Sem betur fer þá eru mjög margir sem vilja leggja okkur lið nú fyrir jólin og vil ég þakka öllum fyrir þann góða stuðning sem við höfum fengið. Við gætum ekki gert þetta ef þið og aðrir á svæðinu hefðuð ekki sýnt slíkan samhug í verki.”

Jóna Berta sagði einnig að þeir sem þurfa á aðstoð að halda þyrftu að hringja í hana í síma 868 3143 dagana 10. til 13. desember nk. Einnig verður hægt að hringja í síma nefndarinnar 462 4617. Afhending fer svo fram dagana 18. til 20. desember í Íþróttahöllinni þar sem Mæðrastyrksnefnd er til húsa. Gengið inn að vestan frá Þórunnarstræti. Það er alltaf opið á þriðjudögum frá kl. 13:00 til 18:00 og þá daga sem úthlutun fer fram verður opið á sama tíma.

Rétt er að vekja athygli á því að Mæðrastyrksnefnd Akureyrar aðstoðar fólk um allan Eyjafjörð, frá Siglufirði að Grenivík, og starfar allan ársins hring þótt mestu annirnar séu nú eins og jafnan áður í kringum jólahátíðina. “Allar ábendingar eru vel þegnar ef fólk veit um einhvern sem þarf aðstoð en af einhverjum ástæðum getur ekki óskað eftir henni,” segir Jóna Berta. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofur stéttarfélaga með slíkar ábendingar og verður þeim þá komið áfram til Mæðrastyrksnefndar

Félögin sex sem færðu nefndinni styrk í dag eru Eining-Iðja, Fagfélagið, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Verkstjórafélag Akureyrar og nágrennis.

Ef einhverjir fleiri vilja leggja nefndinni lið þá er hægt að leggja inn á reikning Mæðrastyrksnefndar í Arion banka. Reikningsnúmerið er 0302-13-300929 og kennitalan er 460577-0209. Munið, margt smátt gerir eitt stórt.